:: Panta bókina
:: Skoða sýnishorn
Útikennsla og útinám í grunnskólum
Reynsla án hugtaka er blind kunnátta, hugtök án reynslu eru tóm kunnátta. Þessi setning er eignuð þýska heimspekingnum Immanuel Kant. Hún er gott leiðarljós í umfjöllun um útinám og útikennslu, þar sem áhersla er lögð á samhengi milli kennslu inni og úti, þekkingarsýn, fjölbreytni í kennslu, mismunandi námsaðferðir og hæfniviðmið í námskrám.
Bók þessi fjallar um útikennslu og útinám í skólastarfi. Í henni er leitast við að kynna útikennslu og útskýra hvað í henni felst, af hverju útikennsla sé mikilvægur þáttur í menntun barna og ungmenna og hvað þurfi að hafa í huga við undirbúning hennar.
Þetta er í senn fræðileg og hagnýt bók, skrifuð til að auðvelda kennurum og skólastjórnendum að rökstyðja og þróa útikennslu á markvissan hátt og tengja hana annarri kennslu þannig að stuðlað verði að heildstæðu námi nemenda. En bókin er ekki síður skrifuð til að sýna þeim sem ekki hafa reynslu af útikennslu hvaða gildi hún hefur fyrir nám og þroska barna og ungmenna og þátttöku þeirra í samfélaginu. Hér byggjum við á þeirri sannfæringu okkar að nemendur geti lært meira og betur ef þeim býðst vönduð útikennsla samhliða annarri kennslu. Þessari sýn viljum við miðla með bókinni. Hún er þó engin glansmyndabók því útikennsla er bæði skoðuð í ljósi möguleika og vandkvæða sem hafa þarf í huga.
Bókin skiptist í 11 kafla. Fyrst er almenn umfjöllun um útikennslu og kynning á helstu hugtökum sem tengjast útikennslu og útinámi. Útskýrt er af hverju útikennsla í skólastarfi er mikilvæg og hvernig breytingar í samfélaginu, breyttir lífshættir, aukintæknivæðing og tengsl á milli heimshluta kalla á breyttar áherslur í menntun. Þá er fjallað um stöðu útikennslu hér á landi og í öðrum löndum og greint frá viðtölum sem tekin voru við kennara
í tengslum við gerð þessarar bókar. Síðan er farið yfir breyttar áherslur í aðalnámskrám hérlendis og erlendis og gerð grein fyrir auknum kröfum um tengsl skólastarfs við nærsamfélagið. Í því samhengi er sérstaklega fjallað um grunnþætti menntunar í aðalnámskrá (2011) og hvernig útinám styður vinnu með grunnþættina. Þá er rætt um tilgang og eðli þekkingar og af hverju bókleg þekking er börnum ekki nóg. Síðan eru kynntar kenningar Deweys, Vygotskys og Piagets um nám og þroska barna og þá sýn sem þeir settu fram um þátt reynslunnar og nærumhverfisins í vitsmunaþroska barna og ungmenna. Á eftir fylgir kafli sem fjallar um grunnatriði góðrar
útikennslu. Þar er sjónum beint að námsumhverfinu í náttúrunni og manngerðu umhverfi sem vettvangi náms. Rætt er um mismunandi hlutverk kennara, áhrif nemenda á nám sitt, um ýmiss konar námsgögn, um fyrirhyggju og öryggisatriði sem hafa þarf í huga þegar farið er með nemendur út og um samstarf við foreldra og aðra. Síðan er fjallað um námsmat í útikennslu og þar á eftir er kafli um hlutverk og þátt skólastjórnenda í skipulagi útikennslu.
Því næst er umfjöllun um aðgerðir sem nágrannaþjóðir okkar hafa gripið til í því skyni að auka vægi útikennslu í daglegu skólastarfi. Í kjölfar lokaorða er heimildaskrá og aftast eru viðaukar.
Tilurð þessarar bókar á sér nokkurn aðdraganda. Báðar höfum við sinnt útikennslu í störfum okkar við kennaramenntun um árabil, önnur í kennaradeildinni í Høgskolen i Bergen og hin við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hugmyndin að bókinni kviknaði í Høgskolen i Bergen. Þar voru haldin nokkur sumarnámskeið
fyrir íslenska kennara í útikennslu og samstarf var við íslenska aðila um útikennslu. Meðal annars fóru norskir leik- og
grunnskólakennaranemar háskólans í vettvangsnám í útikennslu til Íslands. Út frá samstarfinu kviknaði sú hugmynd að skrifa bók um útikennslu á íslensku, þar sem skortur væri á heildstæðu íslensku efni um útikennslu í skólastarfi með hliðsjón af íslenskri aðalnámskrá.
Við gerð bókarinnar var stuðst við fjölda heimilda sem finna má í heimildaskrá. Þessar heimildir fjalla um útikennslu og útinám af ýmsum toga, rannsóknir á skólastarfi og hugmyndir sem tengjast menntun og stefnu stjórnvalda hér á landi og erlendis sem birtast í aðalnámskrám fyrir grunnskólastigið. Við undirbúning bókarinnar voru tekin viðtöl um útikennslu við nokkra kennarahópa og skólastjóra á Íslandi. Oddrun Hallås, sem kennir við Høgskolen i Bergen, tók þátt í þeirri rannsókn. Dýrmætt var að heyra skoðanir fólksins og fá dæmi um reynslu þess. Í bókinni er vitnað til þessara viðtala, og þá eru þau kölluð „kennaraviðtölin 2011–2012“.
Bókinni fylgir vefsíðan www.utikennsla.is þar sem leitast er við að nýta reynslu og hugmyndir, hvort sem þær eiga uppruna sinn hér eða úti í heimi. Þar má meðal annars finna námsefni, hugmyndabanka, kennsluáætlanir og fræðsluefni.
Við erum þakklátar þeim sem hafa gefið okkur tækifæri til að koma þessari bók út. Landsvirkjun (Samfélagssjóður) og mennta- og menningarmálaráðuneytið (Þróunarsjóður námsgagna) veittu styrki við gerð bókarinnar og eru þeim færðar bestu þakkir. Einlægar þakkir fá líka þeir kennarar og skólastjórar sem fúslega deildu reynslu sinni í viðtölunum 2011–2012. Þá færum við Ólafi Oddssyni hjá Skógrækt ríkisins sérstakar þakkir. Hann hefur ekki
aðeins sýnt verkinu áhuga heldur stutt það á margvíslegan hátt. Einnig þökkum við öðrum sem leitað var til og voru reiðubúnir að miðla af reynslu sinni.
Það er von okkar að bók þessi hjálpi kennurum og stjórnendum að styrkja útikennslu í skólum sínum svo útinám verði sjálfsagður og reglulegur þáttur í námi íslenskra barna og ungmenna.
Inga Lovísa Andreassen og Auður Pálsdóttir